Axel og Haraldur báðir á höggi undir pari á fyrsta hring

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Haraldur Franklín Magnús hófu leik í morgun á Opna Isaberg mótinu sem er hluti af Nordic Golf mótaröðinni. Mótið fer fram í Svíþjóð á Isaberg golfvellinum.

Axel og Haraldur voru saman í holli á fyrsta hringnum og er þetta í fyrsta skiptið á tímabilinu sem þeir leika saman á mótaröðinni. Þeir léku báðir á einu höggi undir pari og var spilamennska þeirra mjög svipuð. Axel fékk alls fjóra fugla og þrjá skolla en Haraldur þrjá fugla og tvo skolla.

Enn eiga fjölmargir kylfingar eftir að klára fyrsta hringinn en þegar fréttin er skrifuð eru þeir Axel og Haraldur jafnir í 11. sæti af 152 keppendum. Besta skor dagsins er fjögur högg undir pari.

Alls eru leiknir þrír hringir í mótinu sem lýkur á laugardaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is