Axel og Birgir unnu | Tap hjá Ólafíu og Valdísi

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson hófu Evrópumótið í liðakeppni á sigri gegn liði Belga í dag. Leikið er á Gleneagles vellinum í Skotlandi en mótið fer fram dagana 8.-12. ágúst.

Axel og Birgir mættu þeim Lars Bujis og Christopher Mivis frá Belgíu í fyrsta leik og unnu leikinn mjög sannfærandi, 6/5. Leikinn var fjórbolti þar sem báðir keppendur léku hverja holu fyrir sig og betra skorið taldi.

Á sama tíma mættu þær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir liði Breta, sem var skipað þeim Michele Thomson og Meghan MacLaren en þær töpuðu 5/4.

Annar dagur mótsins fer fram á fimmtudaginn en þá leika Axel og Birgir gegn liði Ítala á meðan Valdís og Ólafía leika gegn liði frá Finnlandi.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Axel Bóasson.


Valdís Þóra Jónsdóttir.


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is