Axel kynntur til leiks á heimasíðu Áskorendamótaraðarinnar

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson hefur leik á sínu fyrsta tímabili á Áskorendamótaröðinni í mars eftir að hafa tryggt sér þátttökurétt í fyrra með frábærri spilamennsku á Nordic Golf mótaröðinni.

Í tilefni þess að nú styttist í fyrstu mót tímabilsins ákvaðu blaðamenn mótaraðarinnar að kynna Axel til leiks.

Rætt er um frábæran árangur Axels á Nordic Golf mótaröðinni þar sem hann sigraði á tveimur mótum, endaði 9 sinnum í einu af 10 efstu sætunum og endaði árið sem stigameistari. Einnig er bent á að með árangrinum er hann orðinn efstur íslenskra karla á heimslitanum.

Minnst er á Birgi Leif Hafþórsson í greininni en hann sigraði á Áskorendamótaröðinni í fyrra, fyrstur íslenskra kylfinga.

[Axel] Bóasson vonast væntanlega til að koma með annan bikar heim en samlandi hans, Birgir Hafþórsson, sigraði fyrstur íslenskra kylfinga á Áskorendamótaröðinni í fyrra.“

Axel var einn fimm kylfinga sem tryggðu sér sæti á Áskorendamótaröðinni í ár í gegnum Nordic Golf mótaröðina. Hinir kylfingarnir eru þeir Christopher Feldborg Nielesen, Niklas Lemke, Ake Nilsson og Victor Osterby. Fyrsta mót ársins fer fram í Keníu dagana 22.-25. mars.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is