Axel í bráðabana um sigur á lokamóti Nordic Golf mótaraðarinnar

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson, GK, er þessa stundina í bráðabana um sigur á lokamóti Nordic Golf mótaraðarinnar eftir frábæran lokasprett. Axel fékk fjóra fugla á síðustu sex holum mótsins og komst þar með í þriggja manna bráðabana.

Með spilamennsku sinni gulltryggði hann efsta sæti stigalistans og skiptir ekki máli hvernig bráðabaninn fer. Svo sannarlega glæsilegur árangur hjá Keilismanninum.

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, lék einnig í mótinu og var góður á lokahringnum (-2). Hann lauk leik á 6 höggum yfir pari í mótinu og endaði í 10. sæti. Það var því miður ekki nóg fyrir hann til þess að enda í einu af 5 efstu sætum stigalistans og því ljóst að hann fær ekki keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í gegnum stigalista Nordic Golf mótaraðarinnar. Hann verður þó í eldlínunni þegar 2. stig úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina fer fram í næsta mánuði.

Hér er hægt að fylgjast með Axel Bóassyni í bráðabana um sigur á lokamóti tímabilsins.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is