Axel bætti sig um fimm högg

Axel Bóasson, kylfingur úr GK, bætti sig um fimm högg milli hringja á Opna portúgalska mótinu, en mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni í golfi. Eftir að hafa leikið á 78 höggum í gær, kom Axel í hús á 73 höggum í dag.

Hann hóf leik á 10. braut og lék hann fyrri níu holurnar á parinu, eftir að hafa fengið skramba á 14. holu og tvo fugla í röð á 15. og 16. holu. Axel var síðan kominn á eitt högg undir par eftir fugl á annarri holunni. Hann tapaði aftur á móti tveimur höggum á síðustu sjö holunum og lauk því leik á einu höggi yfir pari.

Eftir fyrstu tvo hringina er Axel á samtals sjö höggum yfir pari og er hann jafn í 118. sæti. Því er ljóst að hann mun ekki komast áfram, en niðurskurðurinn miðast við þá kylfinga sem eru á tveimur höggum yfir pari og betur.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.