Atvinnukylfingur á Web.com mótaröðinni týndi 32 boltum á tveimur hringjum

Fyrsta mót ársins á Web.com mótaröðinni hófst á sunnudaginn á Bahama eyjum við nokkuð skrautlegar aðstæður. Fresta þurfti leik vegna veðurs oftar en einu sinni og náðu kylfingar loksins í dag að ljúka öðrum hringnum.

Mikill vindur var á svæðinu auk þess sem rigning gerði kylfingum erfitt fyrir, þá sérstaklega á fyrsta hringnum.

Niðurskurðarlínan í mótinu miðaðist á endanum við 11 högg yfir pari eftir tvo hringi og er það hæsta niðurskurðarlína í sögu mótaraðarinnar, svo slæmt var veðrið.

Svo virðist sem Greg Eason hafi átt í erfiðleikum með að halda boltanum lágum á hringjunum en hann segist hafa týnt 32 golfboltum á hringjunum tveimur. Hann lék á 91 höggi og 95 og komst því augljóslega ekki í gegnum niðurskurðinn.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is