Áskorendamótaröðin: Axel og Birgir um miðjan hóp eftir fyrsta hringinn

Íslensku atvinnukylfingarnir Axel Bóasson, GK, og Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, eru nú báðir búnir með fyrsta hring tímabilsins á Áskorendamótaröðinni. Leikið er í Keníu að þessu sinni á Barclays Kenya Open.

Axel lék fyrsta hringinn á einu höggi yfir pari og Birgir Leifur á tveimur höggum yfir pari. Þeir eru því báðir um miðjan hóp að fyrsta hring loknum en Axel er jafn í 74. sæti og Birgir Leifur í 94. sæti.

Axel hóf leik á 10. teig og lék sínar fyrri níu holur á parinu eftir þrjá fugla og þrjá skolla. Á seinni níu var hann svo kominn á högg undir par þegar tvær holur voru eftir en endaði á tveimur skollum og kom því inn á 72 höggum.

Birgir Leifur hóf sömuleiðis leik á 10. teig og var á tveimur höggum undir pari eftir fyrri níu. Á seinni níu fékk Birgir alls fimm skolla og lék þær á 4 höggum yfir pari. Niðurstaðan því 73 högg eða +2.

Þegar fréttin er skrifuð eru þeir Ross Kellett og Max Orrin jafnir í efsta sæti á 6 höggum undir pari.

Alls fara fjórir hringir fram í mótinu og er skorið niður á föstudaginn eftir tvo hringi. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is