Áskorendamótaröðin: Axel og Birgir með góða hringi í Tékklandi

Atvinnukylfingarnir Axel Bóasson og Birgir Leifur Hafþórsson léku vel í dag á öðrum hring Prague Challenge mótsins sem fer fram í Prag á Áskorendamótaröðinni. Báðir fóru þeir upp um nokkur sæti en Axel er þó líklega úr leik.

Birgir Leifur lék á 4 höggum undir pari í dag og er búinn að fara upp um 58. sæti fyrir vikið. Hann er nú í 47. sæti á 3 höggum undir pari í heildina og verður því líklega með um helgina þegar seinni tveir hringir mótsins fara fram. Birgir gerði fá mistök á hring dagsins, fékk 5 fugla og einn skolla.

Axel lék á tveimur höggum undir pari og fór að sama skapi upp um nokkur sæti. Hann situr nú í 80. sæti á höggi undir pari í heildina sem verður að öllum líkindum ekki nóg til þess að komast áfram. Miðað við stöðuna í mótinu núna er Axel höggi frá öruggu sæti um helgina en það getur þó breyst því fjölmargir kylfingar eiga eftir að ljúka leik í dag.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu. Þriðji hringur mótsins fer fram á morgun, laugardag.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is