Aron Snær fór best af stað í Argentínu

Fyrsti dagur Opna Suður-Ameríska áhugamannamótsins fór fram í gær í Buenos Aires í Argentínu. Þrír íslenskir kylfingar eru meðal keppenda en það eru þau Aron Snær Júlíusson, GKG, Helga Kristín Einarsdóttir, GK, og Saga Traustadóttir, GR.

Aron Snær lék fyrsta hringinn á pari vallarins og er jafn í 25. sæti í karlaflokki. Tveir kylfingar deila efsta sætinu á 5 höggum undir pari og er því nokkuð stutt í efstu menn.

Í kvennaflokki lék Helga Kristín á 79 höggum eða 7 höggum yfir pari. Hún er jöfn í 42. sæti eftir fyrsta hringinn, tveimur höggum á undan Sögu sem lék á 81 höggi eða 9 höggum yfir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Þetta er í 13. sinn sem mótið fer fram en keppendur koma frá níu löndum í Suður-Ameríku, auk keppenda frá Kanada, Kosta-Ríku, Englandi, Finnlandi, Íslandi, Írlandi, Mexíkó, Nýja-Sjálandi, Panama, Portúgal, Púertó-Ríkó, Skotlandi, Bandaríkjunum og Wales.


Saga Traustadóttir, GR.


Helga Kristín Einarsdóttir, GK.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is