Aron og Þórður hefja leik á úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina á þriðjudaginn

Aron Snær Júlíusson, GKG, og Þórður Rafn Gissurarson, GR, eru meðal keppenda á 1. stigs úrtökumótum fyrir Evrópumótaröðina sem hefjast á morgun. Aron Snær leikur í Þýskalandi en Þórður í Skotlandi.

Aron Snær er mættur til leiks í fyrsta skiptið á úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina en hann hefur verið einn af okkar efnilegustu kylfingum síðustu ár. Aron leikur á Fleesensee golfvellinum í Þýskalandi og fer mótið fram dagana 12.-15. september.

Aron hefur verið í miklu stuði undanfarnar vikur en hann sigraði bæði á Securitasmótinu og Bose mótinu sem fóru fram á Eimskipsmótaröðinni.

Þórður Rafn keppir einnig dagana 12.-15. september en hann leikur í Kelso í Skotlandi. Þórður Rafn, sem varð Íslandsmeistari í höggleik árið 2015, hefur leikið á þýsku Pro Golf mótaröðinni undanfarin ár og staðið sig vel. Hann situr í 19. sæti stigalistans á þessu tímabili.

Þórður Rafn hefur mikla reynslu af úrtökumótunum en hann tekur þátt í áttunda skiptið. Þórður hefur tvisvar komist áfram á 2. stigið, síðast í fyrra.

Aron Snær og Þórður Rafn verða ekki einu íslensku kylfingarnir sem reyna fyrir sér á úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröðina að þessu sinni en auk þeirra eru þeir Ólafur Björn Loftsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Andri Þór Björnsson allir skráðir til leiks seinna í haust. Þá má einnig búast við því að Axel Bóasson, Haraldur Franklín Magnús og Birgir Leifur Hafþórsson taki þátt.


Þórður Rafn Gissurarson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is