Annað jafntefli hjá Ólafíu og Valdísi

- gegn austuríska liðinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir gerðu jafntefli í þriðju viðureign sinni á Evrópumótinu í liðakeppni sem fram fer á Gleneagles vellinum í Skotlandi. Ísland lenti þannig í 3. sæti í riðlinum og komst ekki áfram.

Íslensku stelpurnar léku gegn Austurríki og léku báðar á undir pari og leiddu viðureignina með einni holu þegar þær komu á lokaholuna en þær austurísku jöfnuðu á 18. flöt. Það skipti ekki máli því Ísland átti ekki möguleika á 1. eða 2. sæti í riðlinum.
Á morgun leika saman karl og kona og mun Valdís leika með Birgi Leif og Ólafía með Axel.
Þegar þetta er skrifað eru Axel og Birgir með tveggja holu forskot eftir 11 holur í sinni viðureign og munu tryggja sér sæti í undanúrslitum ef þeir vinna leikinn.