Andrew Landry í forystu í Kaliforníu

Það er Andrew Landry sem er í forystu þegar tveimur hringjum er ólokið á CareerBuilder Challenge mótinu. Frábær skor hafa verið fyrstu tvo dagana og til marks um það eru þeir kylfingar sem eru jafnir í 10. sæti á samtals 11 höggum undir pari.

Landry var í öðru sæti fyrir annan hringinn á samtals níu höggum undir pari. Hann lék á Nicklaus Tournament vellinum á öðrum hringnum, en leikið er á þremur völlum. Landry hélt uppteknum hætti frá fyrsta hringnum og kom í hús á 65 höggum, eða sjö höggum undir pari. Hann er því samtals á 16 höggum undir pari.

Jon Rahm sem var í forystu fyrir annan hringinn lék á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari. Hann er einn í öðru sæti á samtals 15 höggum undir pari. Hann lék, líkt og Landry, á Nicklaus Tournament vellinum.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.