Amanda og Sigurður hefja leik á Duke of York mótinu í dag

Amanda Guðrún Bjarnadóttir frá GHD og Sigurður Már Þórhallsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur hefja leik í dag á Duke of York mótinu.

Mótið fer fram dagana 12.-14. september og er leikið á Royal Liverpool vellinum. Sturla Höskuldsson, PGA kennari frá GA verður liðsstjóri þeirra.

Mótið er eitt sterkasta og virtasta unglingamót í heimi en íslenskir kylfingar hafa náð ótrúlegum árangri á mótinu undanfarin ár. Guðmundur Ágúst Kristjánsson stóð uppi sem sigurvegari fyrstur Íslendinga árið 2010 áður en Ragnar Már Garðarsson sigraði árið 2012 og Gísli Sveinbergsson sigraði árið 2014.

Amanda Guðrún fer út í fyrsta holli klukkan 8:30 að staðartíma. Sigurður hefur leik klukkan 11:20.

Hér verður hægt að fylgjast með mótinu í beinni.


Sigurður Már Þórhallsson.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is