Amanda Guðrún er kylfingur vikunnar

Amanda Guðrún Bjarnadóttir er kylfingur vikunnar að þessu sinni. Amanda er 16 ára kylfingur sem æfir hjá Golfklúbbi Hamars Dalvíkur og hefur verið að gera frábæra hluti á Íslandsbankamótaröðinni undanfarin ár.

Síðasta sumar varð hún Íslandsmeistari í höggleik, sigraði á þremur mótum á mótaröðinni og varð auk þess stigameistari í sínum aldursflokki.

Kylfingur.is fékk Amöndu til að svara nokkrum laufléttum spurningum.

Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvers vegna? 

Ég byrjaði 9 ára og það var aðallega vegna þess að ég átti vinkonur í golfi og pabbi var mikið í golfi.

Æfir þú einhverjar aðrar íþróttir?

Nei ekki lengur.

Helstu afrek í golfinu?

Íslandsmeistaratitillinn í höggleik og stigameistaratitillinn.

Hvað er það neyðarlegasta sem komið hefur fyrir þig á golfvellinum?

Ætli það sé ekki þegar ég var að syngja í sakleysi mínu á vellinum heima og Birgir Leifur labbar síðan aftan að mér og hafði heyrt það og spurði hvort ég ætlaði ekki að keppa í Ísland Got Talent í gríni.

Hver er þinn helsti styrkleiki og veikleiki í golfi?

Minn helsti styrkleiki er hugarfarið og minn helsti veikleiki eru höggin með löngu járnunum.

Hverjir eru uppáhalds kylfingarnir?

Tiger Woods og Jason Day.

Hefur þú farið holu í höggi eða verið nálægt því?

Nei ég hef aldrei farið holu í höggi og í raun aldrei verið nálægt því.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Örugglega bara Heiðar Davíð Bragason.

Hver er besti kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Heiðar Davíð Bragason.

Hvaða keppnisfyrirkomulag er skemmtilegast í golfi og hvers vegna?

Holukeppni, þá tekur maður meiri sénsa og er grimmari.

Hvaða íslenski kylfingur er sá besti frá upphafi?

Birgir Leifur Hafþórsson.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?

Já, ég verð að segja það.

Hvert er uppáhaldshöggið í golfi?

Drive-in og púttin.


Amanda Guðrún varð Íslandsmeistari í höggleik í flokki 15-16 ára stúlkna síðasta sumar.

Eftirminnilegasti golfvöllur sem þú hefur leikið á?

Hacienda Del Alamo.

Hvað finnst þér skemmtilegast og leiðinlegast við golf? 

Skemmtilegast við golf er félagsskapurinn og að ná árangri en leiðinlegast er þegar hlutirnir ganga ekki upp úti á velli og maður finnur ekki út af hverju.

Hvað er það sem þú þarf mest að bæta í þínum golfleik?

Mig langar alltaf að fá meiri lengd í höggin mín og bæta stutta spilið enn meira.

Getur þú sagt okkur frá eftirminnilegri golfsögu af þínum golfferli?

Ég var árið 2013 í æfingaferð á Spáni að keyra golfbíl í hliðarhalla niður brekku þegar ég dett síðan úr bílnum og hann rennur áfram í átt að samspilurum mínum.

Hvaða þrjár golfholur hér á landi eru í sérstöku uppáhaldi?

Það er t.d. 15. hola á Jaðarsvelli því að hún er í lengri kantinum og innáhöggið er skemmtilegt og krefjandi, 3. hola á Jaðarsvelli og svo er það líka 14. á Leirdalsvelli því hún getur refsað en svo er líka hægt að skora mjög vel á henni.

Hvaða golfholu myndir þú sprengja í loft upp ef þú gætir?

13. holu á Jaðarsvelli.


Staðreyndir
Nafn: Amanda Guðrún Bjarnadóttir
Aldur: 16 ára
Klúbbur: Golfklúbburinn Hamar Dalvík GHD.
Forgjöf: 5,5
Fyrirmynd: Jason Day
Masters eða Opna breska?  Masters
Skógarvöllur eða strandvöllur? Strandvöllur
Uppáhaldslið í enska boltanum?  Manchester United
Tiger Woods eða Rory McIlroy?  Tiger
Uppáhalds matur:  Humar
Uppáhalds drykkur: Sódavatn
Uppáhalds golfhola: 15. á Jaðarsvelli
Erfiðasta golfholan: 12. hola á Urriðavelli
Ég hlusta á:  Rokk og popp
Besti völlurinn: Leirdalsvöllur.
Besta skor: 75 (+3) á La Estancia á Spáni
Besta vefsíðan: Facebook
Besta bíómyndin: Rocky 2
Boltinn í pokanum: Titleist Pro V1
Kylfur: Nike járnasett, Cobra driver, Oddisey pútter og Adamsgolf wedge-ar.
Skór: Ecco biom.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is