Alex Noren: Frábær byrjun á árinu

Svíinn Alex Noren er meðal 12 kylfinga sem leika fyrir hönd Evrópu í EurAsia bikarnum sem fer fram dagana 12.-14. janúar í Malasíu. Lið Evrópu hefur sjaldan verið jafn sterkt en búast má við því að fyrirliðinn Thomas Björn hafi haft mikil áhrif á það enda verður hann einnig fyrirliði evrópska liðsins í Ryder bikarnum seinna á árinu.

Noren telur EurAsia mótið vera frábæra byrjun á árinu en hann var ekki meðal keppenda þegar mótið fór síðast fram.

„Ég tel þetta frábæra byrjun á árinu. Ég var ekki í liðinu fyrir tveimur árum en hefði gjarnan vilja vera með. Fyrir mér er þetta stórt því ég hef ekki verið í það mörgum liðsmótum á mínum ferli.“

Noren segist átta sig á því að góð frammistaða í mótinu getur haft mikil áhrif á val fyrirliðans Thomas Björn þegar að Ryder bikarnum kemur en veit þó að það þarf meira til.

„Ég held að Thomas viti að vikurnar í kringum Ryder bikarinn eru hvað mikilvægastar. Ef mér gengur vel núna og spila svo ekki vel restina af tímabilinu þá er ég ekki öruggur. Ég held þó að við séum allir orðnir vanir því að spila undir pressu og markmið mitt er einfaldlega að leika vel allt tímabilið.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is