Afleitur fyrsti hringur hjá Ólafíu

Það gekk hreint út sagt afleitlega hjá Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur á fyrsta hring Lotte Championship mótsins sem hófst í gær á Havaí. Hringinn lék hún á 81 höggi og er jöfn í 138. sæti.

Hún hóf leik á 10. braut og byrjaði hringinn nokkuð vel. Hún var á pari vallar eftir sex holur, búin að fá einn skolla og einn fugl. Þá komu þrír skollar í röð og lék hún því fyrri níu holurnar á þremur höggum yfir pari.

Spilamennska hennar lagaðist lítið á síðari níu holunum, en hún fékk þrjá skolla í röð á holum tvö til fjögur. Hún fékk svo þrefaldan skolla á sjöttu holunni og var þá komin á níu högg yfir par. Hún lék síðustu þrjár holurnar á pari og lauk því leik á samtals níu höggum yfir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.