Adam Scott ekki með neitt Heimsmót á dagskránni hjá sér

Fyrrum efsti maður heimslistans, Adam Scott, sagði í viðtali fyrir Sony Open mótið sem hefst í dag að eins og staðan væri í dag ætlaði hann ekki að leika í neinu Heimsmóti á þessu tímabili. Hann sagði einnig að hann vildi spila í mótum sem sér þætti skemmtileg og vildi í leiðinni einbeita sér að risamótunum.

„Í lokin leit ég bara á hvaða mót mér finnst skemmtileg. Eins og staðan er núna þá er ég ekki með neitt Heimsmót á dagskránni hjá mér. Það eru risamótin sem skipta máli fyrir mig. Þau telja þegar maður lítur til baka á ferilinn hjá kylfingum.“

Þrjú Heimsmót eru eftir á þessu ári en það er Heimsmótið í Mexíkó, Heimsmótið í holukeppni og svo FedEx St. Jude Invitational Heimsmótið. Aðeins 50 efstu kyflingar heimsins fá þátttökurétt í mótunum og eru þau því oft talin með þeim sterkari á hverju ári. Scott vill aftur á móti meina að það sé úr nóg af sterkum mótum að velja.

„Það eru sterk mót allt í kringum Heimsmótin að mínu mati sem henta vel. Þetta er pínu snúið og svolítið áhugavert hvernig dagskráin kom út hjá mér. En eins og staðan er núna er þetta svona.“