Mike Hebron gestafyrirlesari á haustþingi PGA

Nú um helgina, nánar tiltekið dagana 15.-17. september, fer fram haustþing PGA, samtök atvinnukylfinga á Íslandi. Þingið mun fara fram í Hraunkoti, inniaðstöðu Golfklúbbsins Keilis. Gestafyrirlesari þingsins þetta árið er ekki af verri kantinum, en þar verður mættur Mike Hebron.

Hebron var útnefndur „Hall of fame teacher“ árið 2013 og er hann oft kallaður „kennari golfkennarana“. Nýlega gaf Hebron út bók sem heitir Learning With The Brain In Mind. Einnig hefur hann unnið fyrir mörg af helstu PGA samtökum heims, þar á meðal í Bandaríkjunum, Sviss, Ítalíu, Spáni, Finnlandi, Kanada, Japan, Svíþjóð, Danmörku, Indlandi, Ástralíu, Englandi, Írlandi, Skotlandi, Walse og mun Ísland nú bætast við þennan lista.

Karl Ómar Karlsson, íþróttastjóri Golfklúbbsins Keilis, sem var nýlega ráðinn formaður PGA á Íslandi segir það mikinn heiður að fá mann eins og Hebron til þess að mæta á þingið.

„Ég er virkilega spenntur fyrir þessu þingi. Það að fá mann eins og Mike Hebron, sem hefur unnið með samtökum út um allan heim og fengið viðukenningar fyrir framlag sitt til golfhreyfingarinnar, er algjör hvalreki fyrir samtökin og kennara landsins.“

Nánar má lesa um það á vefsíðu Golfklúbbsins Keilis.