16,5 milljónir Tommy Fleetwood fóru á vitlausan Tommy Fleetwood

Tommy Fleetwood endaði í 12. sæti á Opna mótinu í síðasta mánuði og fékk hann fyrir það 120.000 pund sem er rúmlega 16,5 milljónir íslenskra króna. Peningurinn var aftur á móti lagður inn á 59 ára gamlan mann frá Flórída sem heitir Thomas Fleetwood. Sá maður er golfari líkt og Fleetwood sem við þekkjum en hefur ekki náð alveg sama árangri á vellinum. 

Þegar maðurinn komst að þessu hafði hann strax samband við bankann og lét vita af þessari vitleysu sagði vinur mannsins.

„Ég trúði honum ekki í byrjun, ekki fyrr en hann sýndi mér bankareikninginn sinn. Við athuguðum síðan hvort að þetta væri upphæðin sem Fleetwood hafi átt að fá fyrir Opna mótið og svo var raunin. Þá höfðum við strax samband við bankann og þeir löguðu þetta.“

Fleetwood sjálfur sem endaði í 12. sæti á Opna mótinu sagði að hann hefði ekki verið búinn að taka eftir þessu en bætti svo við að hann þyrfti að halda betur utan um svona hluti.

„Í allri hreinskilni þá vissi ég ekki af þessu. Ég vissi ekki hvort að ég hafi fengið borgað fyrir mótið því ég kíki hreinlega ekki á það. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef vanið mig á að skoða en ég þarf að bæta úr því“