14 ára í toppbaráttunni á Symetra mótaröðinni

Áhugakylfingurinn Alexa Pano getur skráð nafn sitt í sögubækurnar í kvöld þegar lokahringur SKYiGOLF mótsins fer fram á Symetra mótaröðinni.

Pano er í dag 14 ára, 6 mánaða og 21 dags gömul og getur hún orðið yngsti sigurvegari í sögu mótaraðarinnar.

Fyrir lokahringinn er Pano á 8 höggum undir pari, jöfn þeim Jean Reynolds, Lauren Kim og Allison Emrey í efsta sæti.


Skorkort Pano á þriðja hringnum.

Pano er ekki með keppnisrétt á mótaröðinni en fékk boð í mót helgarinnar í gegnum styrktaraðila mótsins. Hún er nú þegar búin að vinna þrjú áhugamót á síðustu þremur mánuðum, meðal annars á Dixie Amateur í desember og Dustin Johnson Junior World í síðustu viku.

Hannah O'Sullivan er yngsti sigurvegari í sögu Symetra mótaraðarinnar. Hún sigraði á Gateway Classic þegar hún var 16 ára, 9 mánaða og 11 daga gömul, rúmlega tveimur árum eldri en Pano.

Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda í beinni.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var meðal keppenda í mótinu en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is