„Ánægð að hafa leikið á höggi undir pari miðað við sláttinn“

Eftir tvo hringi á Women's NSW Open mótinu á Evrópumótaröð kvenna er Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, með tveggja högga forystu í efsta sæti mótsins.

Valdís er samtals á 9 höggum undir pari, tveimur höggum á undan hinni þýsku Karolin Lampert. Nánar er hægt að lesa um annan hringinn með því að smella hér.

„Í hreinskilni sagt var þetta barátta í dag,“ sagði Valdís Þóra eftir annan hringinn í viðtali við LET. „Ég sló ekki nógu vel af teig og hitti einungis þrjár brautir.

Járnahöggin voru ekki jafn ákveðin og í gær þannig að ég er ánægð að hafa leikið á höggi undir pari miðað við sláttinn. Takturinn var ekki í lagi en hann kemur aftur á morgun.“

Valdís segist hafa fengið töluvert af skilaboðum eftir fyrsta hringinn en hún reyndi að hugsa sem minnst út í það á öðrum keppnisdegi.

„Ég reyndi ekki að hugsa um það, en Ísland er 11 tímum á eftir Ástralíu þannig að ég hélt áfram að fá skilaboð í gær og þegar ég vaknaði í morgun minnti það mig á hvað ég gerði í gær. Ég reyndi að hugsa ekki út í það og byrja nýjan dag.“

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is